Íþróttir?

Ég get ekki sagst hafa fylgst mikið með HM í handbolta, nema í gegnum vini mína á Íslandi. Alltaf þegar maður hringir heim þá eru allir ægilega kátir eða þá hundfúlir og maður er ekki alveg með á nótunum.

Hérna kalla menn handbolta European Handball. Hvorki hefur heyrst hósti né stuna um þessa keppni í einum einasta fjölmiðli. Hins vegar er ekki þverfótað fyrir krikket kúlum hérna þessa stundina sem tröllríða allri íþrótta umræðu.  Ef það er ekki krikket þá er það Rugby eða tennis eða þaðan af verra.

Svei mér þá, það verður bara gott að flytja heim aftur þó ekki væri nema bara til að losna undan þessu Rugby-krikket-tennis-sund umræðu allri. Er ég þá ekki að mæla með handbolta, síður en svo.

Hvað var þetta með strokufangana á Akureyri sem ég sá á mbl.is? Langaði greyjunum ekki bara að sjá leikinn við Dani í handboltanum?


Héðan og þaðan

Þessa vikuna hef ég verið að aðstoða vini mína í Suður Ástralíu við að skipuleggja laxavinnslu. Springs Smoked Seafoods er fyritæki sem framleiðir ferskan og reiktan lax og er staðsett nálægt litlu "þýsku"  þorpi. Hótelið sem ég dvaldi á tilheyrði veitingastað sem bauð upp á þenna líka fína þýska bjór, en eins og allir vita er það besti bjór í heimi, "og þótt víðar væri leitað". Þarna datt ég inní þýskt landnám hér í Ástralíu sem var virkilega skemmtilegt, góður matur og góður bjór.

Lásuð þið á mbl.is um græneðluna Mozart  frá Belgíu sem hefur verið með stinnan getnaðarlim í rúma viku? Ég segi nú bara eins og Silja vinkona mín "ertu ekki að grínast". Ljóta baslið á þessu kvikindi. Það stendur víst til að skera hann af!! Það kemur víst ekki að sök því greyið er með tvo!!!! Og kynlífið er víst allt saman í hausnum á honum. Ekki skrítið að hann hafi verið með hann á lofti í heila viku. Maður skilur þetta vel, sérstaklega þegar ég er á þessum ferðalögum, þá er þetta bara í hausnum á manni!!

 And by the way Áfram Arsenal, gerðum góða hluti um síðustu helgi.


Líkamsræktin

Við hjónin erum farin að stunda hjólreiðar. Erum búin að fara eina 50 km þessa vikuna - Það held ég að rassarnir verði stinnir og flottir með þessu áframhaldi!!

Það er nú samt gaman af þessari líkamsækt. Þetta er einhvern vegin alltaf sama sagan. Eftir jólin byrjar maður að koma sér í form og stendur sig svona þokkalega vel fram eftir ári. Síðan fer að halla undan fæti í kringum páskana og á sumrin er þetta einhvern vegin ekki að gera sig. Þegar fer að hausta verður maður nú að drífa sig aftur af stað, ekki hægt að liggja í eymd og volæði. Það gengur mjög vel fram eftir haustinu en þegar líða fer að jólum fjarar þetta út. Síðan hefst hringurinn aftur.

Þetta dugar þó til að halda sér í horfinu, þó ekki sé það meira. Það er nú betra að vera alltaf að reyna en að gera ekki neitt.  Gangi ykkur vel í ræktinni.

Úff


Er að störfum í Victoriu fylki, nærri Melobourne í litlum bæ sem heitir Castlemaine.

Miklir skógareldar geysa hér og er eldlínan um 80m km löng og sér vindurinn um að halda þessu gangandi. Ekki er nokkur leið að slökkva þessa elda en menn berjast við að halda þessu í skefjum og verða að bíða eftir hagstæðri vindátt og haustinu!!

Í gær brunnu í sundur rafmagnslínur sem sjá um að dreifa rafmagni um allt fylkið, til fleiri milljón manns. Hundruð þúsunda heimila voru án rafmagns og voru allir veitingastaðir lokaðir sökum þessa, sem gerði okkur erfitt fyrir varðandi kvöldmat.

Það var svo ekki á það bætandi að hitinn var óbærilegur. Obinberar hitatölur voru rúmar 40° á Celsius kvarðanum. Nú stendur einmitt yfir Opna Ástralska mótið í tennis og var hitinn sem mældist niður á aðal-vellinum rétt eftir hádegi tæpar 50 gráður, í skugga!! Hvenær verður það beinlínis hættulegt að stunda afreksíþróttir? Kannski Kristleifur vinur minn geti svarað þessu.

Annars voru nokkur góð comment frá keppendum í blöðunum í dag.

"Ég fann ekki fyrir fótunum"

"Heilinn á mér er gjörsamlega steiktur"

"Ég er með óráði!"

 


Ég er rotta!!

Skv. kínversku tímatali hefst árið 2007, sem er reyndar árið 4704-4705, þann 17. febrúar nk. Komandi ár er ár svínsins.

Áður en Búdda yfirgaf jörðina í síðasta sinn bauð hann öllum dýrum sköpunarinnar til kveðjuhófs en aðeins tólf mættu. Finnst mér það frekar léleg mæting, Búdda sennilega ekki verið mjög vinsæll. Til að launa þeim vinsemdina nefndi hann ár eftir hverju þeirra og skóp þannig dýrahringinn.  Hver sá er fæðist á ári ákveðins dýrs fær eiginleika þess í vöggugjöf.

Hérna getið þið séð hvaða kínverska ár var þegar þið fæddust.

Rotta  Uxi Tígur Kanína Dreki SnákurHestur 

Geit

Api Hani  Hundur Svín
 193619371938193919401941194219431944194519461947
 1948 19491950 1951 1952 19531954 1955 1956 1957 19581959 
 1960 1961 19621963 1964 1965 1966 1967 1968 196919701971
 1972 1973 1974197519761977197819791980198119821983
 1984 1985 1986198719881989199019911992199319941995
 1996 1997 1998199920002001200220032004200520062007

 

Þar sem ég er fæddur árið 1972 reynist ég vera Rotta!!

Lýsing á rottunni er eitthvað á þessa leið:

"Fólk fætt á ári rottunar er mjög sjarmerandi og heilla hitt kynið upp úr skónum ( þetta byrjar vel! ) Mjög duglegt fólk sem setur sér háleit markmið og nær þeim. Rottur hafa oft fullkomnunaráráttu. Það er auðvelt að reyta rottur til reiði (það getur ekki verið! ) og þær elska að slúðra. Rottur smell-passa með drekum, öpum og uxum."

Smellið á krækjuna til að lesa um ykkar dýr:http://www.c-c-c.org/chineseculture/zodiac/Rat.html

Kínverska árið er 12 mánuðir og 29-30 dagar. Árunum er skipt niður í 12 ára tímabil og er hvert ár nefnt eftir einu af 12 dýrum. Nýju ári er fagnað á öðru tungli eftir vetrarsólstöður sem er milli 21. janúar og 19. febrúar skv. okkar tímatali. Til að halda árinu réttu er það stillt af, svipað og við gerum með hlaupárið.

Kínverjar notast nú reyndar við okkar dagatal og hafa gert síðan 1911 en gamla ártalið er notað til hátiðárhalda, sérstaklega áramótin en þá eru mikil veisluhöld.


Fremantle - WA.


Að störfum í Fremantle, Perth, Vestur Ástralíu.

Fremantle er úthverfi í Perth höfðuborg Vestur Ástralíu. Freo er sérstaklega skemmtileg hafnarborg þar sem miðbærin iðar af lífi, kaffihús og markaðir á "Cappuchino Strip" fullir af fólki og andrúmsloftið afskaplega afslappað.


Miðbærin er staddur niður við höfnina. Þar er mikið úrval veitingastaða sem skaga út í hafið og bjóða upp á veiði dagsins.

Í Fremantle eru mikil evrópsk áhrif, sérskalega ítölsk og portúgölsk.

Það er gaman af því hvað heimurinn er lítill. Þegar mamma var ung flutti ein af bestu vinkonum hennar til Ástralíu og einmitt hingað til Fremantle.

Nú er ég búin að verða mér úti um heimilsfangið hjá henni og símanúmer og ætla að skella mér í heimsókn til hennar.


Það er alger vitleysa að reykja....

Ég byrjaði að reykja sautján ára gamall. Ég var svo óheppin að eiga vini sem að spilltu mér. Þetta voru Albert heitinn bróðir minn og Heimir, sonur Jónasar kokks í Skagaver. Við félagarnir rúntuðum um á Lödu, E-3098 og pikkuðum upp dömur í massa-vís ( og erum svo heppnir að sitja ennþá uppi með þær).  Við keyrðum um Akranes og nágrenni og reyktum hér og þar og "spray-uðum" síðan ilmvatni um allan bíl, foreldrar okkar grunlausir, að okkar mati!!  Ladan var að gera svakalega góða hluti. Það var þó mitt mesta böl að byrja á þessum andskota og gott að vera laus við þetta í dag.

Jón Gunnar sonur minn er mikill spekingur. Við vorum að ræða þessa hluti um daginn og það var eitthvað á þessa leið... 

JG: “Pabbi, af hverju er óhollt að reykja”

Pabbi: “Af því að maður getur orðið svo veikur að maður getur dáið ef maður reykir.”

JG: “En af hverju er þá verið að selja sígarettur?”

Pabbi: “Það er af því að þeir sem búa til sígarettur eru að reyna að plata fólk til að reykja, til að græða peninga”

JG: “ En af hverju kemur ekki bara löggan og tekur þá í fangelsi?

Pabbi: “Það er af því að það er ekki bannað að selja sígarettur.”

JG: “Þannig að þeir eru ekki bara að reyna að drepa fólk heldur líka stela af þeim peningunum!! ....

Svona er þetta nú einfalt!!!


Fögur er hlíðin

Makki á toppnum

Mér finnst Akrafjallið vera fallegasta fjall í heimi. Fast á hæla þess kemur svo Snæfellsjökull - ekki amalegt útsýnið af Skaganum á fallegu sumarkvöldi 

Mig hefur alltaf langað í málverk af Akrafjallinu en aldrei komið því í verk að koma mér upp slíku. Verð að að bæta úr því og tala við hann Bjarna Þór, mér finnst myndirnar hans góðar, sérstaklega það sem hann hefur verið að gera undanfarin ár. 

Það er líka sérlega gaman að ganga á Akrafjallið. Fór í fyrra-sumar með Makka svila mínum á annan tindinn. Fyrir Niðurlendingin var þetta auðvitað gríðarlegt afrek, frá því að búa töluvert fyrir neðan sjávarmál og ganga upp á Háahnjuk, einir 555 metrar frá sjávarmáli, eitthvað hærri fyrir þá sem búa fyrir neðan sjávarmál!! Það var ekki laust við að Makki fyndi fyrir tengslum við Sir Edmund þarna á toppnum, enda á hann ekki langt að sækja þetta, ber nú eftirnafnið Van den Berg sem má yfirfæra sem Makki "frá fjöllum".


Knattspyrnan á Skaganum

Knattspyrnan hefur verið helsta merki okkar Skagamanna, allt frá því Gullaldarliðið kom okkur á kortið. Það er ekki ósanngjarnt að segja að knattspyrnan eigi stóran þátt í að móta það samfélag sem hefur þróast á Akranesi í gegnum árin. 

Ég hef auðvitað fylgst vel með því sem er að gerast í boltanum, þrátt fyrir að vera langt í burtu. Ég lýsi yfir ánægju minni með stöðu mála í dag. Ný stjórn hefur tekið til starfa, mjög öflugir aðilar sem eiga eftir að skila góðu starfi. Þessir menn munu ekki láta hagsmuni sína ganga fram yfir hagsmuni félagsins. Sjórnun knattspyrnufélags felst ekki eingöngu í því að ná árangri á vellinum. 

Nú hefur Gaui tekið við liðinu og ljóst að það mun verða Skagaliðinu til framdráttar, enda Gaui sigursælasti þjálfari Íslands frá upphafi, unnið stóra titla með þremur félögum, það geta ekki margir státað af slíkum árangri. Við Gaui unnum saman í boltanum fyrir nokkrum árum, síðast 1996 - 11 ár síðan ...tíminn líður hratt. Við Gaui erum góðir vinir en það skiptust á skin og skúrir í þá daga. Guðjón er rétti maðurinn til að byggja upp nýtt lið. Það mun taka tíma og hann verður Gaui að fá. 

Skipan þjálfaramála hjá yngri flokkunum er einnig til fyrirmyndar. Doddi stýrir því starfi og ef hann nær að koma örlítið af þeim metnaði og krafti sem hann býr yfir til skila þá þurfum við ekki að kvíða því að fá ekki góða leikmenn á næstu árum. Svo er Lúlli bróðir auðvitað að þjálfa og ekki hægt að fá samviskusamari mann í starfið. 

Það væri gaman að vera lítill gutti á Skaganum núna. Knattspyrnuhúsið sem nýlega var tekið í notkun er draumur í dós fyrir okkur fótboltaáhugamenn. Fyrr á árum gátum við æft á Langasandi og stóðum þar öðrum félögum framar hvað varðar aðstöðu til æfinga yfir vetrartíman og á vorin en nú var svo komið að við vorum að dragast aftur úr. Úr því hefur verið bætt svo um munar. 

Það er ekki langt síðan leikin var bikarúrlitaleikur á klakabundnum Melavelli, í desember. Þarna töpuðum við Skagamenn 3-2 fyrir Akureyringum en mörk okkar Skagamanna skoruðu Teitur og Matti. Í þessum leik tóku þátt menn sem enn eru að starfa við knattspyrnuna, þjálfarar í efstu deild. Frumkvöðlar knattspyrnunnar á Íslandi eiga heiður skilið fyrir þá vinnu sem þeir hafa skilað til að bæta aðstöðu knattspyrnumanna í gegnum árin og óhætt að segja uppbygging íþróttarinnar sé þeim mönnum til mikils sóma.

Hlakka til að koma heim í sumar og fylgjast með.


Hvað er framundan?

Óska öllum gleðilegs nýs árs.

Árið 2006 var sérstaklega gott ár fyrir fjölskylduna í Brisbane. Litla daman dafnað vel og er sérstaklega skemmtileg, eins og mamma sín.

Okkur hefur öllum liðið mjög vel hérna í Brisbane, hér er alger paradís. En þetta ár verður viðburðaríkt. Stefnan hefur verið sett á Ísland og ætlum við að flytja heim í vor, 3 ár verða liðin í júlí síðan að ég byrjaði hjá Marel Australia. Drengjunum hlakkar mikið til að flytja heim enda mikið ævintýri að flytja, hvað þá á milli heimsálfa. Við erum öll mjög spennt að koma aftur heim, hlakkar til að eyða meiri tíma með fjölskyldum okkar.

Þeir vita það allir sem hafa reynt það að flytja á milli landa að fjölskyldan verður mjög samheldin, allir standa saman og treysta hvor á aðra og fjölskyldan eyðir miklum tíma saman, krakkarnir hlaupa ekki beint til vina sinna eftir skóla og um helgar. Allur frítími er fjölskyldutími. Það verður erfitt að viðhalda þessu þegar heim verður komið, en það verður allt gert til að svo verði.

En framundan eru skemmtilegir tímar og vonandi verður 2007 okkur eins gott og 2006 var. 

Til hamingju með afmælið mamma, hip hip húrra!!!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hafsteinn

Höfundur

Hafsteinn Gunnarsson
Hafsteinn Gunnarsson

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband